Dómur í máli nr. 1/2011 Saksóknari Alþingis gegn Þjóðskjalasafni Íslands

8. mar. 2011

 

 PDF Nr. 1/2011

Dómur Landsdóms.

 

Mál þetta dæma Ingibjörg Benediktsdóttir, Ástríður Grímsdóttir, Benedikt Bogason, Brynhildur Flóvenz, Fannar Jónasson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson, Hlöðver Kjartansson, Linda Rós Michaelsdóttir, Magnús Reynir Guðmundsson, Markús Sigurbjörnsson, Sigrún Magnúsdóttir, Viðar Már Matthíasson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Geir Hilmar Haarde skaut málinu til Landsdóms með kæru 3. febrúar 2011, sem barst dóminum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2011, þar sem hafnað var að kærandi fengi komið að kröfum í máli, sem rekið er um kröfu sóknaraðila um að hald verði lagt á nánar tilgreind gögn í vörslum varnaraðila. Um kæruheimild vísar kærandi til 22. gr. laga nr. 3/1963 um Landsdóm. Hann krefst þess að sér verði heimilað að koma að kröfum í framangreindu máli. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Landsdómi, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum er þess krafist að kæranda verði gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Landsdómi.

I

Alþingi samþykkti 28. september 2010 á 138. löggjafarþingi tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherra, þar sem ákveðið var samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. laga nr. 3/1963 að höfða bæri sakamál fyrir Landsdómi á hendur kæranda, Geir Hilmari Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir að hafa á tímabilinu frá febrúar til október 2008 á sex nánar tilgreinda vegu brotið aðallega gegn ákvæðum c. liðar 8. gr. og b. liðar 10. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð, en til vara gegn 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sama dag og ályktun þessi var samþykkt lauk 138. löggjafarþingi. Í samræmi við 14. gr. laga nr. 3/1963 tilkynnti forseti Alþingis 30. september 2010 forseta Hæstaréttar um þessa ákvörðun og tilkynnti sá síðarnefndi kæranda um hana með bréfi sama dag. Á fundi Alþingis á 139. löggjafarþingi 12. október 2010 var kosinn saksóknari og annar til vara til að sækja af hendi þess mál gegn kæranda, sbr. 13. gr. laga nr. 3/1963. Með bréfi til forseta Landsdóms 15. nóvember 2010 krafðist kærandi þess að sér yrði skipaður verjandi og var orðið við því 30. sama mánaðar.

Sóknaraðili krafðist þess 23. nóvember 2010 að varnaraðili léti sér í té endurrit af skýrslum, sem 59 nafngreindir menn hefðu gefið á tímabilinu frá 5. mars 2009 til 8. febrúar 2010 fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, sem starfaði eftir ákvæðum laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða, ásamt skrá um nöfn allra, sem þar hefðu gefið skýrslu, og frekari gögnum, sem talin voru upp í fimmtán töluliðum. Til viðbótar þessu krafðist sóknaraðili 6. desember 2010 að varnaraðili afhenti sér endurrit af skýrslum tveggja nafngreindra manna fyrir rannsóknarnefndinni, svo og gögn, sem talin voru upp í 49 liðum. Þessum erindum svaraði varnaraðili með bréfum 10. desember 2010 og 5. og 11. janúar 2011, þar sem að hluta var orðið við kröfum sóknaraðila, en þeim að öðru leyti hafnað. Sóknaraðili óskaði af þessum sökum 17. janúar 2011 eftir ákvörðun forseta Landsdóms um að fara mætti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með kröfu þess fyrrnefnda um öflun framangreindra gagna með haldlagningu úr hendi varnaraðila, sbr. 22. gr. laga nr. 3/1963, og var fallist á þá beiðni 24. sama mánaðar. Í framhaldi af því beindi sóknaraðili kröfu til héraðsdóms 25. janúar 2011 um að heimilað yrði með úrskurði að hald yrði lagt á endurrit skýrslna 61 nafngreinds manns fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, auk tölvupóstsamskipta kæranda og gagna nefndarinnar um úrvinnslu þeirra.

Framangreind krafa sóknaraðila var tekin fyrir á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2011 og var sótt þing af hálfu beggja aðila. Sóknaraðili lýsti því þar yfir að fallið væri frá kröfu um haldlagningu annarra áðurnefndra gagna en endurrita skýrslna fyrir rannsóknarnefndinni. Einnig var sótt þing af hálfu kæranda og þess krafist að hann fengi „að koma að kröfum í málinu“, svo sem komist var að orði í bókun í þingbók. Kröfur þessar ættu nánar tiltekið að lúta að því aðallega að mál Alþingis á hendur kæranda yrði fellt niður sökum þess að ekki væri mætt í því af hálfu ákæruvaldsins, en til vara að málinu yrði vísað frá dómi með því að ekki hafi verið „löglega staðið að ákæru í málinu.“ Við svo búið var málið flutt um þessa kröfu kæranda, sem var hafnað með hinum kærða úrskurði.

II

Aðalkrafa sóknaraðila um að máli þessu verði vísað frá Landsdómi er reist á því að lagaheimild bresti til að kæra úrskurð héraðsdóms. Um þessa kröfu er þess að gæta að samkvæmt áðurnefndri 22. gr. laga nr. 3/1963 getur forseti Landsdóms eða dómurinn eftir að hann er kominn saman ákveðið að ósk saksóknara, verjanda eða sakbornings að rannsókn ákveðinna atriða eða öflun tiltekinna gagna fari fram fyrir héraðsdómi. Úrskurði héraðsdómara, sem að slíkri rannsókn lúta, má þá kæra til Landsdóms. Krafa kæranda, sem afstaða var tekin til í hinum kærða úrskurði, snýr á engan hátt að þeirri rannsóknaraðgerð, sem sóknaraðili hefur leitað heimildar fyrir, heldur beinist hún að því að fá komið að í málinu kröfum, sem varða grundvöll væntanlegrar málsóknar Alþingis á hendur kæranda og heimild sóknaraðila til að koma þar fram af þess hálfu. Til þess verður og að líta að úrskurður héraðsdóms, sem gengi um kröfu sem þessa í sakamáli, sem rekið væri eftir almennum reglum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, gæti ekki sætt kæru til Hæstaréttar samkvæmt 192. gr. þeirra laga og verður því heldur ekki fundin stoð fyrir málskoti kæranda í 51. gr. laga nr. 3/1963. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá Landsdómi.

Með vísan til 46. gr. laga nr. 3/1963 verður allur kærumálskostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin þóknun verjanda kæranda, sem er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en lagastoð er ekki fyrir þeirri kröfu sóknaraðila að kærumálskostnaður verði lagður á kæranda.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Landsdómi.

Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda kæranda, Geirs Hilmars Haarde, 251.000 krónur.

Senda grein

Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica