Úrskurður í máli nr. 2/2011 Saksóknari Alþingis gegn forsætisráðuneytinu og Geir Hilmari Haarde

22. mar. 2011

 PDF Nr. 2/2011

Úrskurður Landsdóms.

 

Mál þetta dæma Ingibjörg Benediktsdóttir, Ástríður Grímsdóttir, Benedikt Bogason, Brynhildur Flóvenz, Fannar Jónasson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson, Hlöðver Kjartansson, Linda Rós Michaelsdóttir, Magnús Reynir Guðmundsson, Markús Sigurbjörnsson, Sigrún Magnúsdóttir, Viðar Már Matthíasson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Með bréfi 25. febrúar 2011 fór sóknaraðili þess á leit að Landsdómur „úrskurði um að hald skuli lagt á rafrænt afrit af öllum tölvupóstsamskiptum Geirs H. Haarde frá því hann var skipaður forsætisráðherra 15. júní 2006 þar til hann fékk lausn frá störfum forsætisráðherra 1. febrúar 2009“.

Varnaraðilinn forsætisráðuneytið krefst þess að Landsdómur ákveði hvort afhenda beri tölvupóstsamskipti, sem um ræðir í kröfu sóknaraðila, og þá eftir atvikum hvernig það skuli gert og í hvaða umfangi.

Varnaraðilinn Geir Hilmar Haarde krefst þess aðallega að mál þetta verði fellt niður, til vara að kröfu sóknaraðila verði vísað frá Landsdómi, en ella að henni verði hafnað. Að þessu frágengnu krefst varnaraðilinn að heimild til haldlagningar „taki eingöngu til tölvubréfa sem vísað er til í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði.“ Hann krefst jafnframt málsvarnarlauna úr ríkissjóði verði aðalkrafa hans eða fyrsta varakrafa tekin til greina.

I

Alþingi samþykkti 28. september 2010 á 138. löggjafarþingi tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherra, þar sem ákveðið var samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. laga nr. 3/1963 um Landsdóm að höfða bæri sakamál fyrir dóminum á hendur varnaraðilanum Geir Hilmari Haarde fyrir að hafa í embætti forsætisráðherra og sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn brotið á tímabilinu frá febrúar til október 2008 á sex nánar tilgreinda vegu aðallega gegn ákvæðum c. liðar 8. gr. og b. liðar 10. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð, en til vara gegn 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í niðurlagi þingsályktunarinnar sagði eftirfarandi: „Tillögu til þingsályktunar þessarar fylgdi greinargerð og er vísað til hennar og 7. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um nánari skýringar og rök fyrir þingsályktun þessari.“ Sama dag og ályktunin var samþykkt lauk 138. löggjafarþingi. Í samræmi við 14. gr. laga nr. 3/1963 tilkynnti forseti Alþingis 30. september 2010 forseta Hæstaréttar um þessa ákvörðun og kynnti sá síðarnefndi varnaraðilanum hana með bréfi sama dag. Á fundi Alþingis á 139. löggjafarþingi 12. október 2010 var kosinn saksóknari og annar til vara til að sækja af hendi þess mál gegn varnaraðilanum, sbr. 13. gr. laga nr. 3/1963. Með bréfi til forseta Landsdóms 15. nóvember 2010 krafðist varnaraðilinn að sér yrði skipaður verjandi og var orðið við því 30. sama mánaðar.

Í bréfi 7. janúar 2011 til varnaraðilans forsætisráðuneytisins greindi sóknaraðili frá því að yfir stæði rannsókn og gagnaöflun samkvæmt 16. gr. laga nr. 3/1963 og VII. og IX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 51. gr. fyrrnefndu laganna, til að undirbúa rekstur máls fyrir Landsdómi, sem um ræddi í þingsályktuninni 28. september 2010. Í þágu þeirrar rannsóknar væri þess farið á leit að varnaraðilinn forsætisráðuneytið léti af hendi rafrænt afrit af öllum tölvupóstsamskiptum varnaraðilans Geirs Hilmars á tímabilinu frá 15. júní 2006 til 1. febrúar 2009, þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra, svo og allar fundargerðir og minnisgreinar frá ráðherrafundum í ríkisstjórnum hans á þeim tíma. Að fram komnum skriflegum athugasemdum varnaraðilans Geirs Hilmars og nánari rökstuðningi sóknaraðila lýsti varnaraðilinn forsætisráðuneytið þeirri skoðun í bréfi 8. febrúar 2011 að ekki væri ótvírætt að ákvæðum 68. gr. og 69. gr. laga nr. 88/2008 yrði beitt við rannsókn sóknaraðila með stoð í 51. gr. laga nr. 3/1963, sem hann hafi vísað til. Af þeim sökum og í ljósi þess að í gögnum, sem sóknaraðili krefðist að fá afhent, kynnu að vera „tölvupóstar sem varða einkamálefni fyrrverandi forsætisráðherra og annarra“ teldi varnaraðilinn forsætisráðuneytið sér óheimilt að láta í té rafrænt afrit tölvupóstsamskipta varnaraðilans Geirs Hilmars nema fyrir lægi „dómsúrskurður um skyldu og heimild ráðuneytisins í þeim efnum.“

 

II

Vegna afstöðu varnaraðilans forsætisráðuneytisins til óskar um afhendingu gagna, sem fram kom í bréfi hans 8. febrúar 2011, hefur sóknaraðili með vísan til 1. mgr. 23. gr. laga nr. 3/1963 borið upp við Landsdóm fyrrgreinda kröfu um að heimilað verði að leggja hald á rafrænt afrit allra tölvupóstsamskipta varnaraðilans Geirs Hilmars Haarde frá því tímabili, sem hann gegndi embætti forsætisráðherra frá 15. júní 2006 til 1. febrúar 2009. Um stoð fyrir þessari kröfu hefur sóknaraðili vísað til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 51. gr. laga nr. 3/1963. Skilja verður kröfu hans svo að hún taki til tölvupósts, sem hvort heldur hafi verið beint til varnaraðilans Geirs Hilmars eða stafað frá honum og vistaður kunni að vera í tölvubúnaði varnaraðilans forsætisráðuneytisins, en einu gildi hvort slík samskipti hafi farið um tölvupóstfang, sem fyrrnefndi varnaraðilinn kunni að hafa haft þar, eða annarra starfsmanna ráðuneytisins.

Samkvæmt málflutningi varnaraðilans forsætisráðuneytisins fyrir Landsdómi eru áðurgreindar dómkröfur hans eingöngu reistar á þeim ástæðum, sem fram komu í bréfi hans til sóknaraðila 8. febrúar 2011 og getið var hér að framan. Af þeim sökum verður að líta svo á að varnaraðilinn andmæli ekki að krafa sóknaraðila nái fram að ganga að því gefnu að staðfest verði að stoð sé fyrir henni í ákvæðum laga nr. 3/1963 og nr. 88/2008.

Varnaraðilinn Geir Hilmar hefur fyrir Landsdómi gert þær dómkröfur, sem áður var gerð grein fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 3/1963 getur saksóknari Alþingis leitað úrskurðar dómsins um heimild til að leggja hald á muni, sem ætla megi að hafi sönnunargildi í máli sem reka á fyrir dóminum, enda sé skilyrðum laga nr. 88/2008 fullnægt til að slík krafa verði tekin til greina. Í lögum nr. 3/1963 eru ekki reglur um hvernig mál um kröfu sem þessa verður rekið fyrir Landsdómi. Af þeim sökum og að virtri 51. gr. laga nr. 3/1963 verður eftir því, sem við getur átt, að beita um það almennum reglum um meðferð rannsóknarmála fyrir dómi samkvæmt XV. kafla laga nr. 88/2008. Þótt það leiði af 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 104. gr. þeirra laga að ekki eigi að kveðja sakborning, ákærða eða verjanda hans fyrir dóm við meðferð slíks máls ef það snýr að kröfu lögreglustjóra eða ákæranda um rannsóknaraðgerð, sem beina á að þriðja manni, verður að gæta að því að mælt er svo fyrir í 17. gr. laga nr. 3/1963 að verjandi manns, sem borinn er sökum fyrir Landsdómi, eigi rétt á að vera viðstaddur öll þinghöld í máli. Með því að sú sérregla verður að ganga framar almennum ákvæðum laga nr. 88/2008 er varnaraðilanum Geir Hilmari heimilt að hafa uppi í máli þessu dómkröfur, sem varða efni kröfu sóknaraðila eða grundvöll rannsóknarinnar, sem hún er þáttur í, þar með talið hvort saksóknari hafi réttilega verið kjörinn á Alþingi 12. október 2010 og sé þannig bær til að koma fram af þess hálfu í málinu. Samkvæmt þessu verður tekin afstaða til dómkrafna varnaraðilans hér á eftir.

III

Samkvæmt ályktun Alþingis 28. september 2010 ber að höfða fyrir Landsdómi sakamál á hendur varnaraðilanum Geir Hilmari Haarde fyrir ætluð brot, sem þar eru aðallega talin varða við fyrrgreind ákvæði laga nr. 4/1963. Í fyrri málslið 1. mgr. 14. gr. þeirra laga er mælt fyrir um að málshöfðun eftir þeim geti ekki átt sér stað ef þrjú ár líða frá því að brot var framið án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um hana. Brotin, sem varnaraðilinn er borinn sökum um, eiga að hafa verið framin á tímabilinu frá febrúar til október 2008 og var því þingsályktunin samþykkt innan þess frests, sem hér um ræðir. Það var sem fyrr segir gert á lokadegi 138. löggjafarþings, en saksóknari vegna máls á hendur varnaraðilanum var á hinn bóginn kjörinn réttum tveimur vikum síðar á fundi Alþingis, sem haldinn var á 139. löggjafarþingi. Hvorki er kveðið á um það í lögum nr. 3/1963 né nr. 4/1963 að í tillögu til þingsályktunar um höfðun máls skuli mælt fyrir um hver sækja eigi það af hendi Alþingis. Þá eru engar reglur í lögum nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis, sem leiða til þess að þetta tvennt þurfi að gera í einu og sama þingmáli. Í tillögu til þingsályktunarinnar, sem samþykkt var 28. september 2010, var slíkt heldur ekki gert og var því kosning saksóknara ekki þingmál, sem hafði í skilningi 52. gr. laga nr. 55/1991 verið flutt á 138. löggjafarþingi en ekki hlotið lokaafgreiðslu á því og fallið þar með niður. Þótt mælt sé svo fyrir í 2. málslið 13. gr. laga nr. 3/1963 að þegar tillaga til þingsályktunar um málshöfðun fyrir Landsdómi hefur verið samþykkt á Alþingi skuli „jafnframt“ kosinn maður til að sækja málið af þess hendi verður það orð ekki skilið svo að það geti leitt til þess að ályktunin um málshöfðun falli sjálfkrafa niður ef saksóknari er ekki kjörinn samhliða eða í beinu framhaldi af samþykkt hennar eða eftir atvikum á þingfundi á sama löggjafarþingi. Á kosningu saksóknara til að fara með mál Alþingis á hendur varnaraðilanum urðu engar slíkar tafir að til réttarspjalla geti horft gagnvart honum. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að saksóknari hafi á lögmætan hátt verið kjörinn á Alþingi 12. október 2010 samkvæmt 13. gr. laga nr. 3/1963 til að fara með mál þess gegn varnaraðilanum samkvæmt þingsályktuninni frá 28. september sama ár, sem var þá og er enn í gildi. Krafan um heimild til haldlagningar, sem mál þetta tekur til, var því borin upp af réttum málsvara ákæruvalds um sakir á hendur varnaraðilanum og sótti kjörni saksóknarinn jafnframt dómþing Landsdóms 8. mars 2011 til að halda þeirri kröfu fram. Að þessu virtu eru ekki efni til að verða við aðalkröfu varnaraðilans um að mál þetta verði fellt niður.

IV

Af ályktun Alþingis 28. september 2010 og greinargerð með tillögu til hennar verður ráðið að ákvörðun um að höfða bæri sakamál á hendur varnaraðilanum Geir Hilmari Haarde hafi verið reist á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem starfaði eftir ákvæðum laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Af þeim heimildum verður ekki séð að nefnd níu þingmanna, sem kosin var á Alþingi samkvæmt 15. gr. sömu laga til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar, hafi fært sér í nyt 4. mgr. þeirrar lagagreinar til að láta frekari rannsókn fara fram áður en meiri hluti hennar lét frá sér fara tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum. Þessi meðferð málsins á Alþingi var þó hvorki andstæð sérreglum laga nr. 3/1963, þar sem meðal annars er ráðgert í 16., 22. og 23. gr. að saksóknari Alþingis geti rannsakað mál frekar og aflað nýrra gagna eftir að þingsályktun hefur verið samþykkt um málshöfðun, né almennum reglum laga nr. 88/2008, sem binda ekki hendur ákæranda um hvernig eða í hvaða mæli mál sé rannsakað eða hver annist rannsókn þess áður en ákvörðun er tekin um saksókn. Til þess verður einnig að líta að þótt Alþingi hafi ákveðið að höfða beri mál á hendur varnaraðilanum Geir Hilmari hefur þeirri ákvörðun ekki enn verið fylgt eftir með því að sóknaraðili gefi út ákæru eins og ráðgert er í 24. gr. laga nr. 3/1963. Í þeim lögum eru engin ákvæði, sem víkja til hliðar þeirri almennu reglu 1. málsliðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 að sakamál sé höfðað með því að ákærandi gefi út ákæru, og gildir hún því um málsókn fyrir Landsdómi, sbr. 51. gr. laga nr. 3/1963. Krafa sóknaraðila um heimild til að leggja hald á sönnunargögn er í þessu ljósi krafa um aðgerð á rannsóknarstigi máls í skilningi laga nr. 88/2008, en að því verður að gæta að þótt ákæra hefði þegar verið gefin út stæði ekkert því í vegi að sóknaraðili neytti heimilda í IX. kafla laga nr. 88/2008 til að afla frekari gagna með haldlagningu undir rekstri sakamálsins. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 3/1963 er sóknaraðila skylt að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum með rannsókn máls, þar á meðal til að draga fram allt, sem orðið gæti varnaraðilanum til sýknu eða hagsbóta, en til slíkra aðgerða er saksóknari Alþingis ekki bær fyrr en hann hefur verið kjörinn að undangengnu samþykki þingsályktunar um málshöfðun. Tilgangur gagnaöflunar, sem sóknaraðili leitar heimildar fyrir í málinu, er því bæði í samræmi við ákvæði laga nr. 3/1963 og laga nr. 88/2008, enda lýtur hún að sökum, sem ákveðið hefur verið að bera skuli á varnaraðilann fyrir Landsdómi, en með henni verður ekki lagður grunnur að frekari sakargiftum en ályktun Alþingis tekur til, sbr. 40. gr. laga nr. 3/1963. Að þessu virtu brýtur krafa sóknaraðila heldur ekki í bága við þann rétt, sem varnaraðilanum er tryggður með 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til réttlátrar meðferðar sakamáls á hendur sér, en sá munur á aðstöðu ákæranda og sakbornings til gagnaöflunar, sem leiðir af ákvæðum 2. þáttar laga nr. 88/2008, er ekki andstæður grundvallarreglum íslensks réttar um jafnræði, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þessu verður hafnað varakröfu varnaraðilans um að máli þessu verði vísað frá Landsdómi.

V

Í málflutningi af hálfu varnaraðilans Geirs Hilmars Haarde fyrir Landsdómi voru ekki færð sérstök rök fyrir þeirri dómkröfu að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Án tillits til þess verður að gæta að því að sóknaraðili leitar í málinu heimildar til að fá hald lagt á rafrænt afrit allra tölvupóstsamskipta varnaraðilans Geirs Hilmars, sem vistuð kunna að vera í tölvubúnaði varnaraðilans forsætisráðuneytisins, en ljóst má vera að þar geti meðal annars verið að finna gögn, sem lúta ekki að embættisstörfum fyrrnefnda varnaraðilans. Þau atvik geta þó ekki staðið því í vegi að krafa sóknaraðila nái fram að ganga, enda verður varnaraðilinn Geir Hilmar að bera af því áhættu að gögn, sem kunna að varða einkamálefni hans, hafi verið vistuð í tölvubúnaði varnaraðilans forsætisráðuneytisins, en ekki á heimili hans eða öðrum stað, sem friðhelgi hans samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar nær til, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar Íslands 3. maí 2002 í máli nr. 178/2002, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1652.

VI

Að frágengnum þeim kröfum varnaraðilans Geirs Hilmars Haarde, sem afstaða hefur verið tekin til hér að framan, krefst hann þess sem áður segir að heimild sóknaraðila til haldlagningar verði einvörðungu látin ná til „tölvubréfa sem vísað er til í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis“. Af þeim ástæðum, sem áður voru raktar við úrlausn um varakröfu varnaraðilans, verður engin stoð fundin í ákvæðum laga nr. 3/1963 fyrir slíkum takmörkunum á heimildum sóknaraðila til gagnaöflunar, enda ber honum samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 16. gr. sömu laga að leita allra fáanlegra sannana um sakarefnið án tillits til þess, sem Alþingi hefur gert til undirbúnings ákvörðun sinni um málshöfðun, og leggja þær fyrir Landsdóm að því leyti, sem þær geta skipt máli, sbr. 1. mgr. 34. gr. laganna.

VII

Í málinu hefur hvorugur varnaraðila, forsætisráðuneytið eða Geir Hilmar Haarde, borið brigður á að gögnin, sem krafa sóknaraðila um heimild til haldlagningar tekur til, geti haft sönnunargildi í máli Alþingis á hendur síðarnefnda varnaraðilanum fyrir Landsdómi. Til þess verður og að líta að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var meðal annars vísað til tölvupóstsamskipta til stuðnings ávirðingum, sem þessi varnaraðili var þar borinn og urðu síðan grundvöllur að ályktun Alþingis um málshöfðun. Eru því ekki efni til annars en að líta svo á að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 23. gr. laga nr. 3/1963, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008, til að verða við kröfu sóknaraðila á þann hátt, sem í úrskurðarorði greinir.

Ákvörðun sakarkostnaðar vegna rekstrar þessa máls bíður þess að lyktir fáist um fyrirhugað mál Alþingis á hendur varnaraðilanum Geir Hilmari, sbr. 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008 og 46. gr. og 51. gr. laga nr. 3/1963.

Úrskurðarorð:

Sóknaraðila, saksóknara Alþingis, er heimilt að fá hald lagt á rafrænt afrit allra tölvupóstsamskipta, sem vistuð kunna að vera í tölvubúnaði varnaraðilans forsætisráðuneytisins og beint var til varnaraðilans Geirs Hilmars Haarde eða stöfuðu frá honum á því tímabili, sem hann gegndi embætti forsætisráðherra frá 15. júní 2006 til 1. febrúar 2009.

Senda grein

Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica