Úrskurður í máli nr. 3/2011 Alþingi gegn Geir Hilmari Haarde

10. jún. 2011


PDF Nr. 3/2001

Úrskurður Landsdóms

 

Mál þetta dæma Ingibjörg Benediktsdóttir, Ástríður Grímsdóttir, Benedikt Bogason, Brynhildur Flóvenz, Fannar Jónasson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson, Hlöðver Kjartansson, Linda Rós Michaelsdóttir, Magnús Reynir Guðmundsson, Markús Sigurbjörnsson, Sigrún Magnúsdóttir, Viðar Már Matthíasson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Með ákæru 10. maí 2011 höfðaði Alþingi mál á hendur ákærða, Geir Hilmari Haarde, fyrir að hafa í embætti forsætisráðherra brotið á tímabilinu frá febrúar til október 2008 á sex nánar tilgreinda vegu aðallega gegn ákvæðum c. liðar 8. gr. og b. liðar 10. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð, en til vara gegn 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við þingfestingu málsins fyrir Landsdómi 7. júní 2011 krafðist ákærði þess „með vísan til 27. gr. laga nr. 3/1963, um landsdóm, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að þeir dómendur, og varamenn þeirra, sem Alþingi kaus til setu í landsdómi hinn 11. maí 2005 til sex ára samkvæmt b-lið 1. mgr. 2. gr. laga um landsdóm, og sem lög nr. 41/2011, um breytingu á lögum um landsdóm, kveða á um að eigi að ljúka máli eftir samþykkt Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra, víki sæti í landsdómsmáli þessu með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 51. gr. laga um landsdóm.” Saksóknari Alþingis mótmælti þessari kröfu, sem var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi í sama þinghaldi.

I

Alþingi samþykkti 28. september 2010 tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherra, þar sem ákveðið var samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. laga nr. 3/1963 að höfða bæri sakamál fyrir Landsdómi á hendur ákærða fyrir að hafa í embætti forsætisráðherra og sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn gerst sekur um þá háttsemi, sem ákæra í máli þessu varðar. Í samræmi við 14. gr. laga nr. 3/1963 tilkynnti forseti Alþingis 30. september 2010 forseta Hæstaréttar um þessa ákvörðun og kynnti sá síðarnefndi ákærða hana með bréfi sama dag. Alþingi kaus 12. október 2010 saksóknara og annan til vara til að sækja mál gegn ákærða af hendi þess, sbr. 13. gr. laga nr. 3/1963. Með bréfi til forseta Landsdóms 15. nóvember 2010 krafðist ákærði að sér yrði skipaður verjandi og var orðið við því 30. sama mánaðar.

Áður en mál þetta var höfðað kom tvívegis til kasta Landsdóms ágreiningur vegna kröfu saksóknara Alþingis um heimild til rannsóknaraðgerða, sem varða sakarefni málsins. Annars vegar var í landsdómsmáli nr. 1/2011 kærður með stoð í 22. gr. laga nr. 3/1963 úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um heimild saksóknarans til að leggja hald á nánar tiltekin gögn í vörslum Þjóðskjalasafns Íslands og var skorið úr því með dómi 8. mars 2011. Hins vegar var í úrskurði Landsdóms 22. sama mánaðar í máli nr. 2/2011 leyst úr ágreiningi um heimild saksóknarans til samsvarandi aðgerða gagnvart forsætisráðuneytinu, en það mál var rekið á grundvelli 1. mgr. 23. gr. laga nr. 3/1963. Ákærði lét bæði þessi mál til sín taka fyrir Landsdómi.

Sem fyrr segir fylgdi saksóknari ákvörðun Alþingis frá 28. september 2010 eftir með því að gefa út ákæru í máli þessu 10. maí 2011.

II

Samkvæmt b. lið 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 3/1963 kaus Alþingi 11. maí 2005 átta menn til að taka sæti í Landsdómi til sex ára og jafnmarga til vara. Aðalmenn voru kjörnir Linda Rós Michaelsdóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Fannar Jónasson, Hlöðver Kjartansson, Dögg Pálsdóttir og Brynhildur Flóvenz, en varamenn Ástríður Grímsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir, Már Pétursson, Sveinbjörn Hafliðason, Björn Jóhannesson, Magnús Reynir Guðmundsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Sigrún Benediktsdóttir. Jónas Þór Guðmundsson var 30. nóvember 2009 kjörinn varamaður í stað Unnar Brár Konráðsdóttur. Áður en Landsdómur kom saman til að taka fyrir framangreint mál nr. 1/2011 kom fram að tveir aðalmenn, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Dögg Pálsdóttir, gátu ekki tekið sæti í dóminum og komu í þeirra stað varamennirnir Ástríður Grímsdóttir og Magnús Reynir Guðmundsson. Með lögum nr. 41/2011, sem tóku gildi 9. maí 2011, var svohljóðandi málsgrein bætt við 2. gr. laga nr. 3/1963: „Dómarar sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra og varamenn þeirra skulu ljúka meðferð þess máls þrátt fyrir að kjörtímabil þeirra sé á enda.“

Sem áður segir krefst ákærði í þessum þætti málsins að dómarar og varamenn þeirra, sem Alþingi kaus til setu í Landsdómi 11. maí 2005, víki sæti í málinu. Í kröfu ákærða er ekki getið nánar hverjir þeir kjörnu dómarar séu, aðalmenn eða varamenn, sem hún gæti tekið til. Að gættu því að ófært er að taka afstöðu til hæfis ónafngreindra manna, sem ekki hafa tekið sæti í dóminum, verður að líta svo á að krafan varði dómarana Ástríði Grímsdóttur, Brynhildi Flóvenz, Fannar Jónasson, Hlöðver Kjartansson, Lindu Rós Michaelsdóttur, Magnús Reyni Guðmundsson, Sigrúnu Magnúsdóttur og Vilhjálm H. Vilhjálmsson, en aðra ekki.

Framangreinda kröfu reisir ákærði í meginatriðum á því að dómarar, sem hér um ræðir, séu vanhæfir til að sitja í málinu vegna ákvæða 1. mgr. 27. gr. laga nr. 3/1963, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, þar sem draga megi óhlutdrægni þeirra með réttu í efa. Alþingi, sem í málinu sæki ákærða til saka, hafi að frumkvæði þingnefndar, sem kjörin var samkvæmt 3. málslið 13. gr. laga nr. 3/1963, samþykkt áðurnefnd lög nr. 41/2011 til að tryggja að þessir tilteknu dómarar sætu áfram í Landsdómi til að leysa úr málinu, en ekki dómarar, sem hefðu að óbreyttum lögum verið kosnir til að taka þar sæti á sex ára kjörtímabili frá 11. maí 2011. Handhafi ákæruvaldsins í málinu hafi á þennan hátt valið dómara til að fara með það, sem brjóti gegn rétti ákærða til málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Ákærði vísar jafnframt til þess að málsaðilinn Alþingi hafi talið sér fært að breyta reglum um dómara við Landsdóm eftir að ákvörðun var tekin um málshöfðun og tekið í því skjóli í sínar hendur að velja milli þeirra tveggja kosta að kjósa annaðhvort dómara til að fara með málið eftir þeim reglum, sem giltu fyrir setningu laga nr. 41/2011, eða velja dómarana, sem fyrir voru, til áframhaldandi setu með því að framlengja kjörtíma þeirra. Þessi afskipti annars málsaðilans af skipun dómsins leiði ein og sér til þess að ákærði megi draga í efa óhlutdrægni dómaranna, sem eigi í hlut. Alþingi hafi einnig raskað jafnræði aðilanna, en slík afskipti af dómsmáli fari ekki aðeins gegn meginreglum um réttláta málsmeðferð, heldur leiði þau jafnframt til vanhæfis dómara, sem þannig séu valdir til setu í dómi. Þá telur ákærði að þótt ráðgera megi að lög nr. 41/2011 hafi verið sett til að koma í veg fyrir að dómarar, sem Alþingi hefði kosið að óbreyttum lögum til setu í Landsdómi frá 11. maí 2011, yrðu taldir vanhæfir til að fara með málið á hendur sér, verði ekki útilokað að ástæða þessa hafi í raun verið önnur, en vafa um það verði að meta ákærða í hag.

III

Lög nr. 41/2011, sem bættu nýrri málsgrein við 2. gr. laga nr. 3/1963, tóku sem fyrr segir gildi 9. maí 2011 og þar með áður en lokið var sex ára kjörtímabili þeirra dómara við Landsdóm, sem kosnir voru á Alþingi 11. maí 2005. Af þessu leiðir að með fyrrnefndu lögunum voru ekki skipaðir tilteknir menn til að taka sæti í Landsdómi, heldur var breytt eldri reglum um lok kjörtímabils átta dómara. Lagabreyting þessi hafði einnig tekið gildi áður en málið var höfðað. Þótt þrjú mál, sem tengjast sökum gegn ákærða, séu þau einu, sem komið hafa til kasta Landsdóms frá því að hann var settur á stofn með lögum nr. 11/1905, verður ekki fram hjá því litið að með lögum nr. 41/2011 var gerð almenn breyting á reglum um skipun dómsins, sem tók ekki einvörðungu til málsins sem Alþingi hafði ákveðið 28. september 2010 að höfða bæri á hendur ákærða, heldur tekur hún einnig til mála, sem framvegis kunna að verða rekin fyrir dóminum að óbreyttum lögum. Breyting þessi snýr ekki einungis að þeim átta dómurum, sem kjörnir voru á Alþingi 11. maí 2005 og nú sitja í Landsdómi, heldur tekur hún einnig til annarra í þeim hópi samtals sextán aðalmanna og varamanna, sem þá voru kosnir og eru enn kjörgengir til að taka sæti í dóminum. Til þess verður og að líta að um það eru ýmis dæmi við setningu laga, sem leitt hafa til breytinga á skipan eða starfsemi dómstóla, að mælt hafi verið fyrir um að nýjar reglur taki til mála, sem þar eru þegar rekin, sbr. meðal annars 17.-19. gr. laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, XXIV. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, XXVIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 88/2008. Í dómaframkvæmd hafa ekki verið bornar brigður á að samrýmanlegt sé stjórnlögum að mæla fyrir á þann veg í lögum, jafnvel þótt slíkar reglur geti hafa ráðið því hvaða dómari kunni að fara eftir gildistöku þeirra með mál, sem áður var höfðað. Landsdómur er eftir 2. gr. laga nr. 3/1963 að hluta skipaður dómurum, sem sitja þar aðeins tímabundið, en að því leyti er hann hliðstæður Félagsdómi, sem er eini sérdómstóllinn auk Landsdóms eftir íslenskri löggjöf, sbr. 39. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt 4. málslið 48. gr. þeirra laga gildir sú regla að dómarar, sem byrjað hafa meðferð máls fyrir Félagsdómi, skuli ljúka því þótt kjörtímabil þeirra sé á enda. Sama regla gildir og meðal annars um Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 3. mgr. 23. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo sem honum var breytt með 14. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Að þessu öllu virtu verður að líta svo á að breytingin, sem gerð var á 2. gr. laga nr. 3/1963 með lögum nr. 41/2011, hafi hvorki verið ómálefnaleg né til þess fallin að skerða réttindi ákærða, sem hefði ella staðið í þeim sporum að Alþingi, sem hafði ákveðið að höfða mál á hendur honum, kysi í persónubundnu kjöri átta af þeim fimmtán dómurum, sem kæmu til með að fara með það. Í því ljósi gætti löggjafinn og meðalhófs þegar afráðið var þessum kosti framar að breyta lögum nr. 3/1963 á þann hátt, sem gert var með lögum nr. 41/2011.

Þeir átta dómarar, sem sitja í Landsdómi og krafa ákærða lýtur að, voru sem fyrr segir kosnir til starfa 11. maí 2005. Sakargiftir á hendur ákærða varða atvik, sem gerðust löngu eftir það, á tímabilinu frá febrúar til október 2008. Frá því að dómararnir voru kjörnir og fram að því að Alþingi tók með meiri hluta atkvæða ákvörðun um að höfða bæri mál fyrir Landsdómi gegn ákærða fóru tvívegis fram kosningar til Alþingis. Af þeim sökum fer því fjarri að nokkur tengsl geti hafa staðið milli kjörs þessara átta dómara í maí 2005 og ákvörðunar Alþingis um málsókn gegn ákærða rúmum fimm árum síðar. Þegar Landsdómur tók 8. mars 2011 í fyrsta sinn fyrir mál nr. 1/2011, sem eins og áður greinir varðaði heimild til aðgerða við rannsókn sakargifta á hendur ákærða, var í samræmi við 1. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 3/1963 skorað á aðila þessa máls að segja til þess ef þeir teldu einhvern dómaranna vanhæfan til að eiga þar sæti. Af hendi ákærða var engu slíku hreyft. Við munnlegan málflutning um kröfu hans, sem hér er til úrlausnar, var því í raun ekki borið við að nokkuð hafi gerst eftir 8. mars 2011, sem nú gæti valdið vanhæfi einstakra dómara við Landsdóm, annað en það að Alþingi, sem sækir hér ákærða til saka, hafi með setningu laga nr. 41/2011 stuðlað að því að dómarar, sem tæplega sex árum fyrr höfðu verið kosnir til setu í dóminum, skuli áfram gegna þeim störfum þótt kjörtíma þeirra sé lokið. Sú lagabreyting getur að gættu öllu framansögðu ekki skoðast sem atvik eða aðstæður, sem fallin eru til að draga með réttu í efa óhlutdrægni þeirra dómara, sem sitja í málinu gegn ákærða fyrir Landsdómi, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu verður kröfu ákærða hafnað á þann hátt sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákærða, Geirs Hilmars Haarde, um að dómararnir Ástríður Grímsdóttir, Brynhildur Flóvenz, Fannar Jónasson, Hlöðver Kjartansson, Linda Rós Michaelsdóttir, Magnús Reynir Guðmundsson, Sigrún Magnúsdóttir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson víki sæti í máli þessu.

Reykjavík, 10. júní 2011

Senda grein

Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica